Innlent

Tveir ungir piltar syntu í land eftir að hafa kastast af sæþotu

Vera Einarsdóttir skrifar
Myndin tengist ekki fréttinni
Myndin tengist ekki fréttinni

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðaði tvo 16 ára pilta sem köstuðust af sæþotu um hálf tólfleytið í gærkvöld. Þeir voru staddir á Arnarnesvogi um 50 metra frá landi. Nokkur straumur var á þessu svæði sem bar sæþotuna fljótt frá piltunum. Þeir afréðu þá að synda í land. Piltarnir voru nokkuð kaldir og hraktir þegar þeir komust á þurrt en varð þó ekki meint af. Þeir voru báðir í blautbúningum. Sæþotuna rak í áttina að Kópavogshöfn og var lögreglubátur sendur eftir henni. Hún fannst fljótlega.

 

Á síðasta sólarhring voru fjórir ökumenn stöðvaðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi. Jafnmargir voru stöðvaðir fyrir að tala í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað. Þá voru tuttugu og sjö umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í einu tilvikanna leikur grunur á að ökumaður hafi verið undir áhrifum fíkniefna. Tveir menn voru teknir fyrir ölvunarakstur. Annar maðurinn var jafnframt eftirlýstur vegna afplánunar vararefsingar. Lögreglan stöðvaði síðan tvo aðra ökumenn sem höfðu þegar verið sviptur ökuleyfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×