Innlent

Áformað að byggja tíu hæða háhýsi í Vatnsmýrinni

Gunnar Valþórsson skrifar
Tíu hæða hús mun að öllum líkindum rísa fyrir aftan Norræna húsið.
Tíu hæða hús mun að öllum líkindum rísa fyrir aftan Norræna húsið. MYND/Eggert

Tíu hæða stórhýsi í Vatnsmýrinni er á teikniborðinu sem hluti af Vísindagörðum Háskóla Íslands. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segist ekki óttast að Norræna Húsið falli í skuggann af turninum. Áætlað er að kynna áformin formlega á næstunni.

Einkahlutafélagið Vísindagarðar Háskóla Íslands ehf. ætlar að reisa vísindagarða á lóð í Vatnsmýrinni sem afmarkast af Sturlugötu til norðurs, húsi Íslenskrar erfðagreiningar til austurs, Eggertsgötu til suðurs og Oddagötu til vesturs. Deiluskipulag af svæðinu var samþykkt árið 2001 og þar er gert ráð fyrir því að húsin verði þriggja til fjögurra hæða auk tíu hæða háhýsis.

Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri félagsins segir að nú standi hönnunarvinna yfir. Hann segist búast við því að rektor Háskóla Íslands muni gera grein fyrir framkvæmdunum næstkomandi laugardag við útskrift nemenda við skólann. Eiríkur segir engar teikningar af fyrirhuguðu svæði liggja fyrir enn sem komið er. Á fyrri stigum málsins voru gerðar teikningar af vísindagörðunum, en að stjórn fyrirtækisins hafi tekið ákvörðun um að styðjast ekki við þær.

Forstöðumaður Norræna hússins, Max Dager, var ómyrkur í máli í viðtali við Morgunblaðið í gær en hann óttast að tíu hæða bygging myndi skyggja á Norræna húsið sem teiknað var af hinum heimsþekkta finnska arkitekt Alvar Aalto. Eiríkur segist ekki óttast það. Þegar litið sé yfir Vatnsmýrina frá Hringbraut verði Norræna húsið ávallt í forgrunni ásamt Öskju og fyrirhuguðu húsi Listaháskóla Íslands. Hann segist ósammála þeim sjónarmiðum að ekki megi byggja stórar byggingar fyrir aftan þessi kennileiti í Vatnsmýrinni sem ávallt verði í forgrunni.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×