Lífið

Pálmi slasaður eftir hestaferð

Pálmi Gestsson lenti í óhappi í hestaferð í byrjun vikunnar. Hann er nú á batavegi.
Pálmi Gestsson lenti í óhappi í hestaferð í byrjun vikunnar. Hann er nú á batavegi.

„Hann er bara að vakna eftir aðgerðina núna. Þetta fór sem betur fer ekki verr,“ segir Sigurlaug Halldórsdóttir, kona Pálma Gestssonar leikara. Pálmi slasaði sig í hestaferð í byrjun vikunnar og var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur á þriðjudag. Leikarinn góðkunni var í níu daga hestaferð með erlendum ferðamönnum á Norðausturlandi, var reiðmaður með 70 hrossa stóði.

Eftir að hestarnir voru hvíldir í Þistilfirði á mánudag reið ógæfan yfir þegar leggja átti í hann á þriðjudagsmorgun. Pálmi lenti á óþekkri meri sem tók á rás áður en hann komst í bæði ístöðin. Hann náði að sitja merina en hentist fram og til baka í hnakknum þangað til hann náði að endingu að kasta sér af baki.

„Það sem gerist er að lífbeinið gliðnar um 2-3 sentimetra. Þetta eru víst algeng meiðsli hjá hestamönnum,“ segir Sigurlaug. Pálmi var fluttur með sjúkraflugi suður og gekkst undir aðgerð í gærmorgun þar sem borað var ofan í lífbeinið og það spennt saman. Við tekur minnst vikudvöl á spítala og 6-8 vikna endurhæfing á hækjum.

„Hann óttast það mest að missa af hreindýraveiðinni í ágúst. Ég sagði nú við hann að það hefði hingað til enginn farið á hreindýraveiðar í göngugrind,“ segir Sigurlaug og hlær. „Það hvetur hann þó alla vega áfram í endurhæfingunni – að reyna að komast á hreindýraveiðar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.