Innlent

Staða barna og unglinga styrkt með aðgerðaáætlun

MYND/GVA

Tillaga Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna fyrir árin 2007-2011 var samþykkt óbreytt á Alþingi í dag með 47 samhljóða atkvæðum. Skipaður verður samráðshópur fulltrúa ráðherra félagsmála, heilbrigðis- og tryggingamála, dóms- og kirkjumála, fjármála og menntamála til að stuðla að samræmingu og eftirfylgni aðgerðaáætlunarinnar undir forystu félagsmálaráðuneytisins.

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra segir það mikið ánægjuefni að fyrsta þingmál hennar sem ráðherra hafi náð fram að ganga. „Mér er ofarlega í huga þakklæti til Alþingis fyrir þá breiðu samstöðu sem myndast hefur um að afgreiða þessa ályktun fljótt og vel á stuttu sumarþingi og fyrir þann góða vilja sem ég finn hjá ríkisstjórninni að hrinda þessari aðgerð í framkvæmd á kjörtímabilinu," segir Jóhanna.

Meginatriði aðgerðaáætlunar til að styrkja stöðu barna og ungmenna verða að sögn félagsmálaráðherra að bæta afkomu barnafjölskyldna, meðal annars með hækkun barnabóta tekjulágra fjölskyldna, lengingu fæðingarorlofs, stuðningi við foreldra í uppeldisstarfi, eflingu forvarna og aðgerðum gegn vímuefnaneyslu.

Einnig verður framfylgt aðgerðum í þágu barna og ungmenna með þroskafrávik, hegðunarerfiðleika og geðraskanir, langveikra barna og barna sem eiga við vímefnavanda að etja. Sömuleiðis verður ráðist í aðgerðir til að vernda börn og ungmenni gegn kynferðisbrotum og til að styrkja stöðu barna innflytjenda.

„Ég fagna líka mjög því sem fram kemur í nefndaráliti félagsmálanefndar þar sem hvatt er til þess að húsnæðisvandi fátækra barnafjölskyldna verði skoðaður sérstaklega í aðgerðum til að sporna við fátækt", segir Jóhanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×