Lífið

Lúxus-heilsurækt fyrir efnaða fólkið

Eftirsóttur Goran Kristófer Misic nýtur mikilla vinsælda hjá Nordica og mun án vafa taka mikið af kúnnum með sér yfir til Grand Spa.
Eftirsóttur Goran Kristófer Misic nýtur mikilla vinsælda hjá Nordica og mun án vafa taka mikið af kúnnum með sér yfir til Grand Spa. MYND/Anton

„Þetta verður flottasta aðstaða landsins með bestu þjónustu sem völ er á,“ segir líkamsræktarfrömuðurinn Goran Kristófer Micic en í haust mun opna ný og stórglæsileg líkamsræktarstöð á Grand Hótel, Grand Spa.

Það er Goran sjálfur og Gunnhildur Harpa Hauksdóttir sem standa að nýju heilsuræktinni og segir sú síðarnefnda að nýja stöðin aðgreini sig mikið frá þeirri flóru líkamsræktarstöðva sem sprottið hefur upp hér á landi á síðustu misserum.

„Við munum bjóða upp á mun persónulegri og sérhæfðari þjónustu við okkar kúnna og stílum inn á fólk sem vill meiri næði í þjálfun sinni,“ segir Gunnhildur en til marks um það er stefnt að því að hafa ekki fleiri en 350 manns á árskortaskrá. Og framkvæmdastjórinn viðurkennir að Grand Spa muni stíla starfsemi sína á efnaðri viðskiptavini. „Þetta verður ekki ódýrasta stöðin og það er ekkert leyndarmál, en að sjálfsögðu eru allir velkomnir. Á móti kemur að fólk fær mikið fyrir peninginn og við erum sannfærð um að það sé grundvöllur fyrir svona heilsurækt.“

Goran verður yfirþjálfari á Grand Spa en auk fullkomins tækjasals verður að finna gufuböð, nuddpotta, snyrtistofu og allt annað sem prýða þarf hina fullkomnu heilsurækt. Goran hefur um árabil verið einn eftirsóttasti einkaþjálfari landsins og er þekktur fyrir að ná miklum og góðum árangri á vinsælum námskeiðum sínum. Hann hefur verið með aðstöðu hjá Nordica Spa en segir að nýja heilsuræktin sé eðlilegt framfaraskref fyrir sig. „Hér er ég með bestu aðstöðu landsins og fæ tækifæri til að innleiða nýtt rafrænt þjálfunarkerfi sem er það fullkomnasta sem völ er á . Þetta er eitthvað sem ég varð að taka þátt í,“ segir Goran.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.