Innlent

Yfirheyrt vegna sölu á Sky-áskriftum

Lögreglan á Selfossi yfirheyrði Þorstein Gunnarsson í gær vegna sölu á búnaði til móttöku á Sky-sjónvarpsútsendingum og áskriftarkortum. Samtök myndrétthafa á Íslandi, Smáís, höfðu kært starfsemina.

Þorsteinn selur búnaðinn og áskriftarkortin í gegnum síðuna www.skykort.com. Samtökin hafa einnig óskað eftir lögbanni á tvö önnur fyrirtæki sem selja svipaðan móttökubúnað, Eico og Skydigital.is.

Hróbjartur Jónatansson, lögmaður Smáíss, segir samtökin gæta réttinda 365 miðla í þessu máli. Fyrirtækin sem um ræðir eigi hlutdeild að dreifingu á sjónvarpsefni sem 365 miðlar megi einir dreifa á Íslandi, á borð við sjónvarpsþætti og útsendingar á ensku knattspyrnunni.

Jón Magnússon, lögmaður Eico, segir að lögbannskrafan lúti að sölu á áskriftarkortum, sem fyrirtækið selji ekki. Því hafi bráðabirgðalögbannið, sem sett var þangað til krafan verður tekin fyrir, engin áhrif á starfsemi fyrirtækisins. Krafan verði líklega tekin fyrir í dag. „Það er ekki bannað að selja sjálfan búnaðinn,“ segir hann.

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, staðfesti í gær að Þorsteinn hefði verið yfirheyrður af lögreglu. Hann vildi að öðru leyti ekkert tjá sig um málið.

„Ég hef ekkert að segja um málið,“ sagði Þorsteinn þegar leitað var eftir því. Ekki náðist í forsvarsmann Skydigital.is.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×