Innlent

Klámráðstefnan rataði inn á Alþingi í dag

Þátttakendur í samkomu framleiðenda klámefnis ætla ekki að hætta við komu sína hingað til lands. Forsætisráðherra sagðist á Alþingi í dag hafa óbeit á klámiðnaðinum og öllu því sem honum fylgir. Honum væri hins vegar ekki kunnugt um að þeir framleiðendur sem hingað koma standi fyrir mansali eða framleiðslu á barnaklámi.

Athugun lögreglunnar á fólki sem vinnur við framleiðslu á klámi, og ætlar sér að hittast hér á landi í byrjun næsta mánaðar, stendur enn yfir. Athugunin byggir á staðhæfingum Stígamóta að meðal þeirra sem ætli sér að koma séu aðilar viðriðnir mansal og barnaklám. Málið allt hefur vakið gríðarlega athygli enda hafa fjöldamörg samtök mótmælt fyrirhugaðri samkundu og taka biskupsembættið og borgaryfirvöld undir þau mótmæli. Mótmælin byggjast á almennum hegningarlögum er varða bann við framleiðslu, sölu, útbýttingu og innflutning á klámi.

Í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag spurði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,formaður Samfylkingarinnar, forsætisráðherra um skoðun hans á málinu. Hann sagðist hafa óbeit á klámiðnaðinum og öllu sem honum fylgi en honum væri ekki kunnugt um að þeir framleiðendur sem hingað koma standi fyrir mansali eða framleiðslu á barnaklámi. Lögreglan hefði tekið athugasemdir Stígamóta til alvarlegrar skoðunar og beðið væri eftir niðurstöðum þeirra.

Cristina Ponga-vega, skipuleggjandi Snow Gathering segir af og frá að framleiðendur og starfsfólk fyrirtækja í klámiðnaði ætli sér að hætta við komuna til Íslands. Hún segist reið yfir þeim ásökunum sem framleiðendur klámefnisins sitja undir og ítrekar að ekki standi til að framleiða klám eða dreifa því hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×