Lífið

Sýking í sjávardýragarðinum á Ísafirði

Lísbet Harðardóttir þurfti að kveðja fiskana í sjávardýragarðinum þegar þeir fengu sýkingu í auga en stefnir að því að opna garðinn á ný.
Lísbet Harðardóttir þurfti að kveðja fiskana í sjávardýragarðinum þegar þeir fengu sýkingu í auga en stefnir að því að opna garðinn á ný. Mynd/Smári Karlsson

„Fiskarnir fengu sýkingu í augun og þess vegna þurfti ég að tæma búrið,“ segir Lísbet Harðardóttir, sjávardýragarðsstjóri á Ísafirði. Eins og Fréttablaðið greindi frá fyrir skömmu opnaði Lísbet lítinn sjávardýragarð, sem var í raun eitt 1.800 lítra fiskabúr, utandyra í Neðsta kaupstað á Ísafirði. Sjávardýragarðurinn vakti mikla lukku en nú stendur hann tómur.

„Vinnukarlarnir í bænum slitu í sundur streng sem lá í búrið og það varð eitthvað vesen í kringum það. Svo fengu fiskarnir sýkingu í augað svo ég varð að sleppa þeim í sjóinn,“ útskýrir Lísbet. „Ég ætlaði að fá penisilín handa fiskunum en strákurinn sem ætlaði að redda því var í sumarfríi og því fór sem fór.“

Lísbet hefur þó ekki lagt árar í bát þótt ákveðnir byrjunarörðugleikar hafi látið á sér kræla við opnun sjávardýragarðsins. „Nú er gott fólk gengið í málið sem ætlar að hjálpa mér að koma þessu aftur af stað. Það er kannski eins gott að hafa fengið svona mikla hjálp frá þessu góða fólki því stundum veit ég ekki hvernig ég á að bera mig að í þessu,“ segir Lísbet Harðardóttir, sjávardýragarðsstjóri á Ísafirði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.