Innlent

Styttir gæsluvarðhald yfir meintum kókaínsmyglurum

MYND/GVA

Hæstiréttur hefur stytt gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir tveimur mönnum sem grunaðir eru um að hafa reynt að smylga ríflega 3,7 kílóum af kókaíni til landsins sem ætlað var til sölu.

Fíkniefnin voru falin í Benz-bifreið sem flutt var til landsins með flutningaskipi frá Cuxhaven í Þýskalandi í nóvember í fyrra. Mennirnir voru gripnir eftir að annar þeirra hafði leyst bílinn út úr tollinum en lögregla hafði þá lagt hald á efnið og komið fyrir gerviefni í þeirra stað.

Héraðsdómur hafði úrskurðað mennina í gæsluvarðhald til 1. ágúst. Aðalmeðferð í málinu átti að hefjast 4. júní en vegna þess að annar mannanna óskaði eftir að mati á þroska og heilbrigðisástandi sínu var ákveðið að fresta aðalmeðferð málsins til 4. júlí.

Fram kemur í úrskurði Hæstaréttar vegna gæsluvarðhaldsins að dómara hefði verið rétt í ljósi ofangreindra atriða að hefja aðalmeðferð fyrr og taka málið á ný til meðferðar, ef þörf verði á, þegar niðurstaða matsmannsi liggur fyrir.

Það sé ekkert því til fyrirstöðu að dómari hagi meðferð málsins nú í samræmi við þetta og ákveði að aðalmeðferð fari fram fyrr en ráðgert er. Stytti Hæstiréttur því gæsluvarðhaldið til 13. júlí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×