Lífið

Tiger Woods fjölgar mannkyninu

Tiger og Elin eignuðust stúlkubarn sem hefur verið gefið nafnið Sam Alexis Woods.
Tiger og Elin eignuðust stúlkubarn sem hefur verið gefið nafnið Sam Alexis Woods.

Síðustu misseri hafa verið erfið fyrir Tiger Woods. Hann missti pabba sinn, Earl Woods, á síðasta ári en þeir voru mjög nánir vinir. Þrátt fyrir tap á US-Open um helgina gafst Woods tækifæri til að fagna sínum stærsta sigri á mánudeginum.

Tiger og eiginkona hans, hin sænska Elin Woods, eignuðust dótturina Sam Alexis Woods snemma á mánudagsmorgun en frá þessu er greint á heimasíðu kylfingsins. Tiger, sem stóð í ströngu um helgina þegar hann gerði atlögu að titlinum á Opna bandaríska meistaramótinu, sagði á heimasíðunni að þetta væri mjög sérstök stund fyrir hann og Elin og þau gætu ekki beðið eftir því að takast á við foreldrahlutverkið. „Við setjum síðan inn myndir af henni á næstu mánuðum,“ skrifaði Tiger.

Úlfar Jónsson lýsti lokadeginum á Opna bandaríska en þar bar argentíski kylfingurinn Angel Cabrera sigur úr býtum. Tiger gerði reyndar harða atlögu að Cabrera og hefði getað tryggt sér sæti í bráðabana með því að ná fugli á lokaholunni. Úlfar telur hins vegar nokkuð víst í ljósi fæðingarinnar að Cabrera hefði engu að síður unnið. Tiger hefði nefnilega afboðað sig en á mótinu eru spilaðar átján holur í bráðabana daginn eftir. „Þetta er svona svipað og hjá Phil Michelson árið 1999. Þá átti konan hans von á sér og hann spilaði með símboða allt mótið. Hann hafði þá sagst ætla að hætta um leið og kallið kæmi, sama hver staðan hefði verið,“ útskýrir Úlfar.

Tiger lýsti því nýverið yfir að hann myndi ekki taka þátt í Opna breska mótinu ef það skaraðist á við fæðingu erfingjans. En golfáhugamenn ættu að geta tekið gleði sína því nú eru allar líkur á því að Woods verði meðal þátttakenda. „Hann hefur áður sagt að hann ætti eftir að taka þátt í mörgum mótum og vinna marga sigra. En barnið, það fæddist aðeins einu sinni,“ segir Úlfar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.