Lífið

Scorsese með Laxness á náttborðinu

Hefur mikið dálæti á landi og þjóð og ekki síst bókmenntunum.
Hefur mikið dálæti á landi og þjóð og ekki síst bókmenntunum.

Bíófrömuðurinn Árni Samúelsson í Sambíóum var viðstaddur sérstaka frumsýningu heimildarmyndarinnar Shine a Light eftir Martin Scorsese í New York á mánudagskvöldinu. Þar fylgir leikstjórinn goðsagnakenndi rokkgoðunum í Rolling Stones eftir en allar helstu stórstjörnur Hollywood voru viðstaddar.



Árna og eiginkonu hans, Guðnýju Björnsdóttir, gafst síðan færi á að hitta leikstjórann að máli. Og þar kom upp úr kafinu að Scorsese er ákaflega hrifinn af Íslandi. „Hann nefndi það að fyrra bragði að hann væri að lesa Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness,“ segir Árni og bætir því við að Scorsese hafi lýst yfir miklum áhuga á að koma til landsins og vera viðstaddur frumsýningu myndarinnar hér heima. „Hann kemur til Evrópu um það leyti sem myndin er frumsýnd og ég gaukaði því að honum að það væri hægur leikur að koma hérna við áður en hann héldi til stóru landanna,“ útskýrir Árni, sem sagðist nú ætla að róa að því öllum árum að láta þetta verða að veruleika.



Shine a Light verður heimsfrumsýnd 21. september hér á landi og segir Árni að myndin eigi eftir að verða mikill smellur. Allir þekki Rolling Stones og þrátt fyrir að sveitarmeðlimir séu komnir á efri árin eigi þeir mikið inni. „Að sjá þá Mick Jagger og Keith Richards var eiginlega ótrúlegt,“ segir Árni en bætir því við að gítarleikarinn drykkfelldi steli eiginlega senunni. „Úthaldið hjá Jagger kom mér hins vegar í opna skjöldu. Hann hleypur alveg eins og brjálæðingur um sviðið og er í alveg ótrúlega góðu formi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.