Lífið

Ráðherra sló ritarann fyrir álfi

Guðlaugur Þór keypti í gær fyrsta álfinn í hinni árlegu álfasölu SÁÁ. Á myndinni er einnig Birta Aradóttir.
Guðlaugur Þór keypti í gær fyrsta álfinn í hinni árlegu álfasölu SÁÁ. Á myndinni er einnig Birta Aradóttir.

„Þetta telst eitt af mínum allra fyrstu embættisverkum. Og það geri ég með mjög glöðu geði,” segir Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra.

Í gær keypti Guðlaugur fyrsta álfinn í hinni árlegu álfasölu SÁÁ sem nú fer fram í 18. sinn.

Þegar Fréttablaðið náði tali af ráðherra var nokkurt óðagot niðri í ráðuneyti því ráðherra hugðist snarast út í næsta hraðbanka til að ná í reiðufé til að greiða fyrir álfinn góða. En hann átti þá von á sölufólki álfsins innan tíðar.

„Nei, ég hef þá nefnilega grunaða um að vera ekki með posa,” segir Guðlaugur Þór aðspurður hvort hann teldi SÁÁ-fólk ekki vera með posa líkt og ljóðskáld sem liggja orðið á því lúalagi, þegar menn breiða yfir áhugaleysi sitt á ljóðabókum til sölu með því að segjast ekki eiga fé handbært heldur bara kort, að veifa framan í þá posa.

„Nei, bíddu, þetta reddaðist. Ég sló ritarann. Fyrir álfi,” segir ráðherra léttur í bragði. Og gat nú rólegur sinnt blaðamanni.

„Þetta er afskaplega gott framtak. SÁÁ er eitt þessara öflugu félagasamtaka sem eru að vinna gott starf í þágu heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Nei, þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég kaupi álfinn. Ég held ég hafi alltaf gert það og meira að segja hef ég skrifað greinar í þeim tilgangi að hvetja fólk til að kaupa álfinn. Það er mér sérstök ánægja að fá að kaupa þann fyrsta núna og vil hvetja alla til að kaupa hann einnig. Enda er þeim fjármunum vel varið.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.