Lífið

Bjargvættur sósunnar

Hrefna Rósa Jóhannesdóttir segir lítið mál að frysta heimagert soð, sem svo er hægt að grípa til eftir hentugleikum.
Hrefna Rósa Jóhannesdóttir segir lítið mál að frysta heimagert soð, sem svo er hægt að grípa til eftir hentugleikum. MYND/Vilhelm

Þegar sósan, súpan eða kássan stefnir í bragðlaus óefni getur heimagert soð bjargað málunum. Hrefna Rósa Jóhannesdóttir, yfirkokkur í Sjávarkjallaranum, sagði hægt að gera afbragðs gott kjötsoð á fjórum klukkutímum og kjúklingasoð á um það bil klukkutíma. Fisksoð og grænmetissoð taka einungis um hálftíma.

„Í grænmetissoð notar maður það rótargrænmeti sem manni finnst gott, brúnar það í potti og sýður í vatni í hálftíma,“ sagði Hrefna. „Fyrir kjötsoð er gott að brúna beinin inni í ofni á svona 180 gráðum fyrst. Þá fer öll aukafita af þeim. Beinin eru svo sett í pott með vatni og maður sýður grænmeti með síðasta hálftímann,“ sagði hún. Hrefna mælir með harðgeru grænmeti á borð við lauk, steinseljurót, sellerírót og gulrætur, sem er brúnað á pönnu fyrst. „Svo má setja lárviðarlauf, timjan og hvítlauk út í,“ bætti Hrefna við.

„Fyrir humarsoð er gott að brúna beinin, en fyrir fisksoð er mikilvægt að skola beinin vel áður en þau eru soðin,“ sagði Hrefna. Eftir að beinin eru sigtuð frá má láta soðið sjóða enn þá meira niður. „Þá tekur það ekki jafn mikið pláss í frystinum, og maður fær kraftmeira soð,“ benti Hrefna á. Soðið er því næst látið kólna. Fitan flýtur þá upp svo hægt er að fjarlægja hana með skeið. Soðið er svo fryst og notað eftir hentugleikum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.