Innlent

Flóttamenn vegna bágrar stöðu sjónskertra á Íslandi

Helga Bjarkadóttir, sjónskert stúlka
Helga Bjarkadóttir, sjónskert stúlka

Rut Sverrisdóttir býr í Svíþjóð ásamt tveimur börnum sínum, Sverri sem er eins og hálfs árs og Helgu sem verður sex ára í ágúst og er mikið sjónskert. Þau fluttust til Svíþjóðar fyrir tveimur árum vegna þess að Rut gat ekki hugsað sér að láta sjónskerta dóttur sína ganga í skóla á Íslandi.

Rut er sjálf mikið sjónskert og var í skóla á Íslandi. Hún segir sláandi hversu mikill munur sé á aðhaldi blindra barna á Íslandi og í Svíþjóð. "Ég sá fram á það að þetta yrði bæði mikil vinna fyrir mig og stelpuna. Þess vegna fluttum við út. Ég man það að þegar ég var í skóla sjálf á Íslandi þurfti mamma að hafa fyrir öllu. Kerfið heima hefur bara farið versnandi síðan ég var í skóla."

Helga byrjar í skóla í haust og Rut segir hana hafa fengið ótrúlegan stuðning í aðdraganda skólagöngunnar. Hún hafi fengið að fara í heimsókn í skólann til að læra á umhverfið, henni hafi verið kennt að ganga í skólann, hún hafi farið og borðað með tilvonandi bekkjarfélögum sínum sem hafa verið hálfu ári lengur en hún í skóla til að læra á matsalinn og fengið þjálfun í íþróttasalnum. Helga þurfi ekki að lesa blindra­letur en notist þess í stað við lessjónvarpsskjá. Henni hafi verið útvegaður einn slíkur fyrir heimilið og annar fyrir leikskólann, sem svo muni fylgja henni upp í skólann. Þá fái hún spilara fyrir hljóðbækur þegar að flóknari textum kemur, auk þess sem stuðningsfulltrúi hennar úr leikskólanum fylgir henni upp í grunn­skólann.

"Þegar hún byrjar í skólanum þá á hún að þekkja umhverfið eins og öll önnur börn," segir Rut. "Sveitarfélagið er með mann í vinnu hjá sér sem sér um að allt sé til staðar sem hún þarf." Allt er þetta greitt af sjónstöðinni þarlendis.

Rut segir að þar til þekkingarmiðstöð verði komið á fót á Íslandi muni hún og börnin búa í Svíþjóð. "Við erum eins og flóttamenn. Við komumst ekki heim vegna þess hvað málefni fatlaðra eru aftarlega á merinni. Ef ég flyt heim missir Helga möguleika á námi og það vil ég ekki bjóða mínu barni." Rut segir að vinkona Helgu, sem býr á Íslandi og er einnig sjónskert, sé á leið í skóla í haust og ekkert hafi verið gert í hennar málum.

Rut vonar að bætt verði úr málum á Íslandi. "Skólinn reynir að gera sitt besta en hefur ekki það sem til þarf. Það vantar þekkingarmiðstöð til að hægt sé að leita eitthvert með fyrirspurnir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×