Innlent

Velferðarkerfi á villigötum

Ríkið er stærsti bótaþegi lífeyris, segir Stefán Ólafsson prófessor enda fari allt að 85% til ríkisins vegna skerðingar bóta og skattlagningar. Á ráðstefnu um brotalöm í velferðarkerfinu í dag sögðu fulltrúar aldraðra og öryrkja að það þyrfti þverpólitíska þjóðarsátt um að afnema þá þjóðarskömm sem kjör þessara hópa væru.

Er velferðarríkið á villigötum var yfirskrift ráðstefnu í dag sem félög eldri borgara, öryrkja, verkalýðshreyfingin og fleri stóðu að í dag. Framsögumenn bentu á brotalamir í velferðarkerfinu sem bentu til þess að hægt væri að svara spurningunni játandi.

Stefán Ólafsson, prófessor fjallaði enn um vaxandi skerðingu lífeyris og skatta á lífeyrisgreiðslur á síðustu árum og komst að þeirri niðurstöðu að vegna þessara skerðingar sé ríkið að fá 66-85 prósent af lífeyri í sinn hlut. Í reynd væri ríkið því stærsti bótaþeginn úr almenna lífeyriskerfinu.

Sigursteinn Másson, formaður Öryrkjabandalagsins segir að það stefni í þverpólitíska samstöðu um að breyta skerðingarákvæðum í bótakerfinu. Hann segir einnig að sá sem enn haldi því fram að lægstu tekjuhóparnir í samfélaginu, þar á meðal þeir sem séu á bótum, hafi ekki þurft að þola vaxandi skerðingu á síðustu árum séu í reynd að segja að allir helstu hagfræðingar landsins séu með samsæri gegn ríkisstjórninni. það þurfi vænissýki á háu stigi að halda þessu enn fram.

Margrét Margrétsdóttir, formaður Félags eldri borgara segir að það sé þjóðarskömm að ekki sé hægt að tryggja öldruðum sómasamleg kjör. Það sæmi ekki einni af auðugustu þjóð heims og nauðsynlegt sé að breyta þessu hið snarasta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×