Innlent

Vitnaleiðslum í Baugsmálinu lokið

Vitnaleiðslum í Baugsmálinu lauk fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðja tímanum í dag. Málflutningur hefst í fyrramálið og stendur fram eftir degi en að honum loknum verður málið tekið í dóm.

Spurt var um ýmislegt tengt ársreikningagerð og bókhaldi Baugs í Héraðsdómi fyrir hádegi í dag, en fjórir ákæruliðir af átta í Baugsmálinu lúta að því. Óskar Magnússon, fyrrverandi stjórnarformaður félagsins, Guðfinna Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, og Þorgeir Baldursson, forstjóri Kvosar, báru þá vitni. Þau tvö síðastnefndu sögðu sig úr stjórn Baugs í mars árið 2003 vegna trúnaðarbrests.

Eftir hádegi voru vitni kölluð fyrir dóm vegna innflutnings á fjórum bílum sem deilt er um í hinum ákæruliðunum fjórum. Þá bar Halldór Steinar Hestnes, sem vann að gerð tollskýrslna vegna innflutnings fyrir Baug, að hann hefði komið auga á að faktgjöld af tveimur bílanna hafi verið of há og því spurt þau Jóhannes Jónsson og Kristínu dóttur hans hvort hann ætti að skrifa leiðréttingarskýrslu vegna þess sem hann hafi og gert. Jóhannes hafi sagt sér að helmingur endurgreiðslunnar, um hálf milljón króna, ætti að renna til meðferðarheimilisins Byrgisins sem hafi orðið.

Vitnaleiðslum er því lokið í málinu og málflutningur sækjanda hefst í fyrramálið og stendur væntanlega til hádegis. Þá taka verjendur við og má búast við að málið verði dómtekið síðdegis á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×