Lífið

Úrin vinsæl hjá Íslandsvininum Eli Roth

Úr Eli Roth mun endast í 100 ár að sögn úrsmiðsins. Sjálfur hefur hann verið að í 40 ár og er ekki á leiðinni að hætta.
Úr Eli Roth mun endast í 100 ár að sögn úrsmiðsins. Sjálfur hefur hann verið að í 40 ár og er ekki á leiðinni að hætta. MYND/Rósa

Í verslun Gilberts Ó. Guðjónssonar úrsmiðs á Laugaveginum má fá íslensk gæðaúr, sem framleidd eru af syni Gilberts og tveimur samstarfsmönnum hans. Um er að ræða fyrstu íslensku úrin, en þau hafa ekki einungis notið vinsælda landsmanna, heldur vakið athygli Íslandsvinanna Eli Roth og Quentin Tarantino.

„Eli Roth var hjá okkur í síðustu viku og keypti tvö úr," sagði Gilbert í samtali við Fréttablaðið, en þetta er í annað skiptið sem leikstjórinn fjárfestir í úri hjá Gilbert. „Um áramótin síðustu komu hann og Quentin Tarantino og keyptu hvor sitt úrið. Það var frumgerðin. Þeir fengu úr númer þrjátíu og fjögur og þrjátíu og fimm," sagði Gilbert. „Núna var þetta þannig að dóttir mín hitti Eli á balli. Hún kannaðist við hann síðan um áramótin og spurði af hverju hann væri ekki með úrið.

Hann sagðist ekki hafa tímt að hafa úrið á sér í vinnunni, því hann var að taka upp í Bláa lóninu, en að það væri á dagskránni hjá honum að koma hingað aftur," sagði Gilbert, en svo fór að Eli mætti ásamt bróður sínum, Gabriel Roth, og Eyþóri Guðjónssyni, sem lék í Hostel. „Eli keypti úr handa bróður sínum í afmælisgjöf og fékk sér annað. Hann sagði einmitt að nú myndi Tarantino verða öfundsjúkur," sagði Gilbert, en íslenska úrið hans Tarantino hefur til dæmis fylgt honum í viðtalsþátt Conan O'Brien, sem nýtur mikilla vinsælda vestan hafs. „Þeir eru svo miklir Íslandsvinir. Maður þarf að átta sig á því að þetta er náttúrlega allt annar heimur hérna. Þeir geta gengið um göturnar óáreittir og finnst það alveg æðislegt," sagði Gilbert.

Úrin, sem kosta um 100.000 krónur, hafa notið mikilla vinsælda að sögn Gilberts. „Fólk er svo ánægt með þetta framtak og margir spyrja af hverju ég hafi ekki verið fyrir löngu búinn að gera þetta," segir Gilbert, sem hefur verið úrsmiður í fjörutíu ár og lofar því að úrin muni endast í að minnsta kosti 100 ár. Gangverk og aðrir hlutar úrsins eru fengnir að utan, en úrin eru svo sett saman á verkstæði Gilberts. „Ætli það sé ekki svona fjórir fermetrar, enda köllum við þetta minnsta úraframleiðslufyrirtæki í heimi," sagði Gilbert.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.