Innlent

95% verðmunur á sumum jólabókum

Allt að 95% verðmunur var á nýjum jólabókum þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í bókaverslunum og stórmörkuðum í dag miðvikudag. Office 1 var oftast með lægsta verðið í könnuninni eða á 36 titlum af þeim 37 sem kannaðir voru. Á öllum titlum reyndist yfir 50% munur á hæsta og lægsta verði og í flestum tilvikum var verðmunurinn 60%-65%.

Bókaverslunin Iða í Lækjargötu neitaði þátttöku í könnuninni.

 

Hæsta verðið í könnuninni var oftast í Bókabúð Máls og menningar við Laugaveg; á 22 titlum af þeim 37 sem skoðaðir voru. Penninn-Eymundsson hafði hæsta verðið í 21 tilviki.  

 

Sem dæmi um verðmun má nefna að Konungsbók eftir Arnald Indriðason var ódýrust kr. 2.355 í Nettó í Mjódd en dýrust kr. 3.750 í Máli og menningu og Pennanum Eymundsson sem er kr. 1.395 verðmunur eða 59%. Stafsetningarorðabókin í ritstjórn Dóru Hafsteinsdóttur kostaði kr. 3.839 í Office 1 þar sem hún var ódýrust en kr. 6.980 í Máli og menningu og Pennanum Eymundsson þar sem hún var dýrust. Það er 3.141 krónu verðmunur eða 82%.  

 

Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum: Máli og menningu Laugavegi, Pennanum Eymundsson Kringlunni, Bóksölu stúdenta Hringbraut, Griffli Skeifunni, Office 1 Skeifunni, Nettó í Mjódd, Hagkaupum Kringlunni, Bónus Kringlunni, Krónunni Bíldshöfða og Samkaupum-Úrval í Njarðvík.

Nánari upplýsingar um verðkönnunina eru á síðu ASÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×