Erlent

Farþegar fréttu af flugráninu eftir lendingu

Ítalskir lögreglumenn leiða flugræningjann, Hakan Ekinci, á brott eftir flugránið.
Ítalskir lögreglumenn leiða flugræningjann, Hakan Ekinci, á brott eftir flugránið. MYND/AP

Farþegar flugvélar Turkish Airlines sem var rænt á leið frá Albaníu til Tyrklands í gær vissu ekki af flugráninu. Þeim var sagt að lenda þyrfti á Ítalíu vegna tæknilegra örðugleika á flugvellinum í Istanbul.

Það var ekki fyrr en þeir sáu vopnaða hermenn á flugvellinum í Brindisi og fengu SMS skilaboð frá áhyggjufullum ættingjum, að þeir áttuðu sig á stöðu mála.

Flugræninginn sleppti áhöfn og farþegum stuttu eftir komuna til Ítalíu. 113 manns voru um borð í vélinni sem var á leið frá Tirana í Albaníu til Istanbul í Tyrklandi.

Maðurinn heitir Hakan Enkinci og er 28 ára gamall, en í fyrstu var talið að mennirnir hefðu verið tveir. Enkinci hafði verið vísað úr landi í Albaníu þar sem hann sótti um pólitískt hæli en hann var liðhlaupi úr Tyrkneska hernum.

Yfirvöld í Tyrklandi sögðu manninn sem var múslimi, hafa snúist til kristinnar trúar. Fréttir af því að með ráninu væri hann að mótmæla komu Benedikts páfa til Tyrklands eru ekki réttar. Hann hafði hins vegar skrifað páfa bréf í ágúst þar sem hann óskaði eftir liðsinni hans til að komast hjá herþjónustu í Tyrklandi.

Hann átti yfir höfði sér fangelsisvist í Tyrklandi vegna liðhlaupsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×