Innlent

Passið ykkur á flugeldunum

Annríki hefur verið á slysavarðstofunni í Fossvogi í gær og í dag. Þrjú flugeldaslys urðu í Reykjavík í gærkvöldi en ekkert í dag enn sem komið er. Sigrún Þorsteinsdóttir hjá Landsbjörgu segir góða vísu greinilega aldrei of oft kveðna, því slysin haldi alltaf áfram að gerast, þrátt fyrir áróður lækna og flugeldasala.

Hún segir hlífðargleraugun mjög mikilvæg, ekki eingöngu fyrir þann sem er að skjóta, heldur einnig fyrir þá sem fylgjast með. Höndin skal vera útrétt og ef flugeldurinn tekur ekki við sér á ekki að reyna til þrautar heldur hella á hann vatni og skila honum á flugeldasölustaði.

Efnið í fatnaðinum skiptir líka miklu máli. Gerviefni eins og flís og nælon fuðra upp og valda slæmum brunasárum, því er mun betra að vera í ullarvettlingum eða skinnhönskum og útifatnaður úr næloni er skaðræði.

En ekki eru allir sáttir við flugeldaskothríð Íslendinga og íbúi einn í Árbæ kvartar mjög undan nábýlinu við flugeldasölu í Rofabæ. Sigrún Reynisdóttir býr í Hraunbænum og segir mengun og ónæði óþolandi. Hún er auk þess astmasjúklingur og reynir að loka að sér gluggum en segir flugeldareykinn smjúga alls staðar inn.

Stórbruni hjá Hjálparsveit skáta í Hveragerði á gamlársdag í fyrra er víti til varnaðar og til marks um hversu illa getur farið þegar flugeldar eru annars vegar. Þá var verið að tengja flugeldasýningu þegar eldurinn blossaði upp en barst sem betur fer ekki í flugeldasöluna og lagerinn sem var í hinum enda hússins. Nýtt hús er enn ekki risið en flugeldasalan er samt í fullum gangi.

Hjálparsveitin verður þó með flugeldasýningu nú á gamlárskvöld en miklar varúðarráðstafanir hafa verið gerðar. Nú verður flugeldasýningin tengd í öðru húsi en flugeldasalan er og það hefur verið tæmt og séreinangrað. Allir sem vinna við flugeldasýninguna verða þar að auki í bómullargöllum og allar tengingar verða límdar niður, þar sem það var heftibyssa sem varð völd að brunanum í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×