Innlent

Búrhvalurinn tapaði baráttunni um kýrnar

Stóran búrhval hefur rekið á land í Þykkvabæjarfjöru, skammt þar frá sem flutningaskipið Vikartindur strandaði fyrir tæpum tíu árum. Búrhvali rekur hér af og til á land og eru það alltaf tarfar sem hafa orðið undir í harðri lífsbaráttu um yfirráð yfir kúahjörðum.

Að sögn Árna Jónssonar á Hellu, sem er búinn að skoða hvalinn, er hann um 12 metra langur og líklega um 25 tonn að þyngd. Kjálkinn, eða neðri skolturinn, er rifinn af honum og þar með tennurnar sem þykja eftirsóknarverðir. Að öðru leyti er hann heillegur og hefur líklega borist upp á fjörukambinn í suðvestan hafróti fyrir jólin.

Eins og fyrr segir eru reknir búrhvalir hér við land einatt tarfar sem ekki hafa náð að safna um sig kvennabúri eins og búrhvalstörfum er tamt. Slíkar stórfjölskyldur halda sig í hlýrri sjó sunnar í Atlantshafinu og því sjást kýrnar aldrei hér við land.

Tilgátur eru um að kýrlausir tarfar flækist hingað í hálfgerðu reiðileysi og beri margir beinin hér við land sem eins konar útlagar. Fulltrúar Hafrannsóknastofnunar ætla austur í Þykkvabæ við fyrsta tækifæri til að taka sýni úr hvalnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×