Innlent

Vaxandi fylgi við Íbúðalánasjóð

Vaxandi fylgi er við það meðal almennings, að Íbúðalánasjóður starfi áfram í óbreyttri mynd og færri en áður vilja að bankarnir taki við starfsemi sjóðsins. Um það bil 83% landsmanna vilja að sjóðurinn starfi áfram í óbreyttri mynd, samkvæmt nýrri skoðanakönnnun Capacent, og hefur stuðningur almennings við sjóðinn aukist frá síðustu könnun, sem gerð var í ársbyrjun.

Þá vilja aðeins 6,4% að sjóðurinn verði lagður niður og að bankarnir taki við starfseminni, eða mun færri en í ársbyrjun. Einnig vilja nú mun færri að sjóðnum verði breytt í eins konar heildsölubanka og að bankarnir annist svo áfram lán til lántakenda. Í nýju könnuninni kemur einnig í ljós að tæp 80% eru jákvæð í garð sjóðsins, innan við 4% neikvæð og afgangurinn óákveðinn.

Þetta gengur þvert á vilja þorra þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, sem hafa viljað róttækar breytingar á starfsemi sjóðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×