Innlent

Ráðist á lögreglumenn

Tveir lögreglumenn meiddust og voru fluttir á Slysadeild, eftir að þeir urðu fyrir fólskulegri líkamsárás í vesturbæ Reykjavíkur um fjögur leytið í nótt. Þeir höfðu verið kallaðir að fjölbýlishúsi vegna hávaða af skoteldum, sem verið var að skjóta úr einni íbúðinni. Annar þeirra var meðal annars sleginn á barkann.

Þegar þeir komu á vettvang og voru að ræða við íbúa hússins, réðust tveir menn skyndilega á lögreglumennina, þeim að óvörum, og slógu annan þeirra meðal annars í barkann. Slík högg geta verið lífshættuleg og flokkast undir mjög grófa árás. Þau virka gjarnan til þyngingar dóma yfir ofbeldismönnum.

Til harðra átaka kom uns lögreglumennirnir náðu að yfirbuga árásarmennina og kalla á liðsauka. Árásarmennirnir voru handteknir en lögreglumenirnir fluttir á slysadeild, en voru útskrifaðir þegar búið var að gera að sárum þeirra. Lögreglumenn líta þeta mál mjög alvarlegum augum, ekki síst í ljósi þess að stöðugt fleiri lögreglumenn meiðast í átökum við ofbeldisseggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×