Innlent

Allt að áttatíu tonn af olíu hafa lekið úr Wilson Muuga

Nú liggur fyrir að sjötíu til áttatíu tonn af olíu hafa lekið úr flutningaskipinu Wilson Muuga á strandstað við Hvalsnes. Dæling úr skipinu hefur gengið vel og er henni að ljúka.

Þessi leki er í samræmi við það sem sérfræðingur áætlaði rétt fyrir jól og við greindum þá frá. Annarsvegar er um að ræða að minnstakosti 60 tonn af þeim 70 tonnum af svartolíu, sem voru í botngeymum skipsins og hinsvegar hátt í 15 tonn af gasolíu, sem var í geymum undir aðalvélinni.

Svo virðist sem hafrótið á strandstað hafi náð að þeyta svartolíuna og dreifa henni á haf út því sáralítillar mengunar hefur orðið vart. Talið er að hátt í tíu tonn af svartolíu svamli enn í lestum skipsins og verður að beita öðrum aðferðum en nú er beitt við að ná henni.

Dæling úr hliðargeymum hefur hinsvegar gengið vel og er nú búið að dæla 90 tonnum af svartolíu, ásamt glussa og smurolíu, úr þeim. Þeirri dælingu verður væntanlega lokið um eða eftir hádegi og þar með verður svonefndu bráðaástandi lokið og við tekur fín hreinsun og svo niðurrif skipsins. Átta manna hópur um borð, hefur unnið nær sleitulaust að dælingunni í rúma tvo sólarhringa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×