Innlent

Universal vill semja við Garðar Thór

MYND/Ómar

Universal, stærsta hljómplötufyrirtæki í heimi, hefur lýst yfir áhuga á að semja við Garðar Thór Cortes um útgáfu í Bretlandi og um allann heim. Þetta kemur fram í tilkynningu frá umboðsmanni hans, Einari Bárðarsyni.

Þar segir enn fremur að forstjóri Universal Classic & jazz í Bretlandi hafi fylgst náið með Garðari í Bretlandi síðustu tvo mánuði og í síðustu viku voru Garðar Thór og Einar Bárðarson boðaðir á fund í höfuðstöðvar Universal í London þar sem fyrirtækið lýsti yfir áhuga sínum.

Á meðal listamanna sem eru á mála hjá fyrirtækinu eru stórtenórarnir Placido Domingo og Luciano Pavarotti, Andrea Bocelli, Cecilia Bartoli, Bryn Terfel, Anna Netrebko, Rene Flemming, Madeleine Peyroux og Katherine

Jenkins. Þá eru djasstónlistarmenn eins og Diana Krall, Elvis Costello, Jamie Cullum og Ray heitinn Charles á mála hjá fyrirtækinu.

„Universal mun kynna tilboðið sitt fyrir okkur í byrjun janúar. Auðvitað er það spennandi. Þetta verður þó bara allt að koma í ljós. En það er gaman að þeir skuli taka eftir því sem við erum að gera," sagði Garðar Thór Cortes sem kom heim frá Bretlandi seint á föstudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×