Innlent

Búið að dæla upp úr kjöllurum á Ísafirði

Sjór flaut yfir stóran hluta Eyrarinnar á Ísafirði í dag. Slökkvilið og bæjarstarfsmenn áttu í fullu fangi með að dæla vatni upp úr kjöllurum húsa og af götum bæjarins. Ekki liggur fyrir hversu mikið tjón varð vegna þessa en það þó ekki talið mikið. Dælingu úr kjöllurum er lokið.

Ísfirðingar fóru ekki varhluta af því að illviðri gekk yfir landið í nótt og í dag. Mjög hvasst var í bænum í nótt og í morgun og þegar við bættist stórstraumsflóð, sem hafði áhrif á frárennsliskerfi bæjarins, æddi sjórinn yfir götur á eyrinni þannig að þær líktust frekar fljótum en götum.

Slökkvilið og bæjarstarfsmenn voru fóru af stað snemma í morgun og hafa í allan dag barist við vatnselginn. Talið er að flætt hafi inn í 10-12 hús og lauk því starfi nú skömmu fyrir fréttir að sögn Þorbjarnar Sveinssonar, slökkviliðsstjóra á Ísafirði. Þorbjörn telur að tjónið í húsunum hafi ekki orðið mikið þar sem fólk hafi varann á og geymi ekki verðmæti í kjöllurum.

En það þurfti líka að dæla vatni af götum bæjarins, sérstaklega við Bensínstöð ESSO við Hafnarstræti en þar safnaðist vatnið fyrir á bílaplani. Skemmdir urðu á dælubúnaði á bensínstöðinni og er því ekki hægt að afgreiða þar eldsneyti fyrr en á morgun þegar varahlutir koma frá Reykjavík. Þá var um tíma óttast að vatn hefði lekið í eldsneytistanka í jörðu en svo reyndist ekki vera.

Nú undir kvöld hafði dregið úr flóðinu má því búast við að Ísfirðingar hafi allt sitt á þurru þegar jólin ganga í garð á morgun.

Við þetta má bæta að nokkurt eignatjón varð á Grundarfirði í nótt vegna óveðursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×