Innlent

Þrjár vélar farnar til Egilsstaða

Þrjár flugvélar fóru fyrir hádegi til Egilsstaða og ein vél er farin til Vestmannaeyja. Nokkur fjöldi bíður þess á Reykjavíkurflugvelli að komast ferða sinna áður en jólahátíðin gengur í garð.

Seinkun er á öllu millilandaflugi, allt frá fimmtán mínútum upp í nokkra klukkutíma. Til að mynda lenti flugvél frá Boston klukkan rúmlega tíu en til stóð að hún lenti í Keflavík upp úr klukkan hálfsjö í morgun. Er seinkunin aðallega vegna vonskuveður og tafa undanfarna tvo daga.

Lítið hefur verið flogið innanlands í morgun. Þrjár vélar flugu til Egilsstaða fyrir hádegi og vonir standa til að hægt verði að fljúga áfram þangað í dag. Þeir fóru með fyrstu vélunum í morgun sem komust ekki með flugi í gær og reynt var að koma einhverjum þeirra með sem áttu pantað flug í morgun.

Ein vél fór til Vestmannaeyja klukkan korter yfir ellefu. Athugað verður með flug til Akureyrar nú í hádeginu og kanna á hvort hægt verði að fljúga til Ísafjarðar klukkan rúmlega eitt. Til stóð að fresta fyrstu ferð Herjólfs til Vestmannaeyja en hann fór klukkan hálfellefu og er á leið til Eyja. Ekki er víst hvenær næsta ferð verður farin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×