Innlent

Alþingi verður að taka á hlerunarmálum

Alþingi verður að fara að dæmi Norðmanna og skipa rannsóknarnefnd um hleranir. Þetta segir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, eftir að ríkissaksóknari lýsti því yfir að ekkert væri fram komið sem styddi fullyrðingar hans um hleranir og ekki væri tilefni til að halda rannsókn málsins áfram.

Ríkissaksóknari segir að eðlilegar skýringar hafi fundist á atviki í Landssímahúsi þar sem starfsmaður vitnaði um að hann hefði laumast í hlerunartæki og heyrt þar rödd Jóns Baldvins. Þá hefði heimildarmaður í Útlendingaeftirlitinu ekki getað staðfest veigamikil atriði í framburði Jóns Baldvins.

Um fyrra atriðið segir Jón Baldvin að þar standi fullyrðing gegn fullyrðingu. Maður hafi gefið sig fram sem stóð annan mann að verki við að hlera símann en sá maður neiti.

Varðandi síðara atriðið þá hafi maður komið fram undir nafnleynd sem síðan treysti sér ekki formlega til að standa við upplýsingar sem hann gaf.

Niðurstaðan sé því sú að það gangi ekkert með þetta mál fyrr en Alþingi láti það til sín taka, eins og Norðmenn hafi gert, segir Jón Baldvin. Hann kveðst nú ætla ganga á eftir því ásamt systkinum sínum að fá öll gögn upp á borðið í hlerunarmáli föður síns, Hannibals Valdimarssonar, fyrir hálfri öld.

Það mál afsanni þá kenningu að hleranir hafi eingöngu farið fram ef grunur léki á að viðkomandi væri hættulegur öryggi ríkisins eða starfsfriði Alþingis.

"Hannibal var hvorugt. Þetta voru pólitískar njósnir sem tók hálfa öld að fá fram. Ég spyr: Hvað tekur það langan tíma að fá afganginn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×