Innlent

Ekki hægt að dæla olíu úr flutningaskipinu fyrr en eftir hátíðarnar

Ólíklegt er að hægt verði að hefja dælingu úr flutningaskipinu Wilson Muuga, sem strandaði við Hvalsnes, fyrr en eftir hátíðarnar. Könnunarleiðangur sem farinn var í dag leiddi í ljós að olía hefur lekið úr skipinu en hún hefur ekki náð upp í fjöru. Í nótt er spáð vonskuveðri sem kemur til með að reyna mjög á skipið.

Landhelgisgæslan flug um hádegi í dag með fjóra starfsmenn Olíudreifingar um borð í skipið. Könnuðu þeir ástandið á olíutönkunum í skipinu. Í ljós koma að botntankar skipsins eru skaddaðir. Davíð Egilson, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir olíuflekki hafa borist frá skipinu. Hún virðist þó ekki leka nema í litlu mæli og brotna niður í sjónum en í könnunarflugi sem farið var í dag sást engin olía uppi í fjöru.

Veðrið hefur verið slæmt á strandstað. Skipið stóð af sér veðrið í nótt, er stöðugt og hefur lítið hreyfst. Ekki er heldur að merkja neinar breytingar á skrokk skipsins. Til að hægt verði að koma nauðsynlegum búnaði til olíudælingar um borð þarf veðrið að haldast skaplegt í um tíu klukkustundir. Aðeins hafa gefist þrjár til fjórar klukkustundir á dag til vinnu um borð í skipinu. Davíð segir allt tilbúið til dælingar ef veður gefst. Slæmt veður sé hins vegar framundan og ekki búist við að það dragi úr því fyrr en líða tekur á hátíðarnar. Davíð segir ljóst að ekki verði hægt að byrja að dæla olíu úr skipinu fyrr en eftir hátíðarnar.

Skipið veikist eftir því sem beðið verður lengur. Í nótt er spáð vonskuveðri sem kemur til með að reyna mjög á skipið. Starfsmenn fara því aftur út í skipið á morgun til að kanna ástand þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×