Innlent

Fólksfjölgun á Íslandi sú mesta í Evrópu

Íbúar á Íslandi eru rétt liðlega 307 þúsund talsins, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Fólksfjölgun var óvenju mikil á árinu, eða 2,6 prósent, og er hún hvergi í Evrópu svo mikil um þessar mundir. Fólki fjölgaði í öllum landshlutum nema á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.

Landsmönnum fjölgaði á árinu um nærri átta þúsund manns. Þótt fæðingartíðni sé enn há hérlendis miðað við önnur vestræn ríki skýrir náttúruleg fjölgun aðeins þriðjung fólksfjölgunarinnar. Tvo þriðju má rekja til mikil aðstreymis fólks frá útlöndum. Fjölgun útlendinga kemur fram í mannfjöldatölum víða um land, þó langmest á Austurlandi. Þannig mælist veruleg fólksfjölgun bæði í Fjarðabyggð og Fljótsdalsshreppi. Tölur Hagstofunnar sýna að hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda, sem lengst af var innan við tvö prósent, hefur rokið upp á síðustu árum og eru erlendir ríkisborgarar nú sex prósent mannfjöldans hérlendis. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði mest í Hafnarfirði eða yfir fimm prósent meðan Reykjavík var langt undir landsmeðaltali, með rétt liðlega eins prósent íbúafjölgun. Sveitarfélög sem liggja að höfuðborgarsvæðinu, eins og Vogar, Hveragerði og Árborg, nutu verulegrar fólksfjölgunar. Hins vegar hélt fólki áfram að fækka í Vestmannaeyjum, um 2,4 prósent í ár. Þeir landshlutar sem annars urðu verst úti í mannfjöldaþróun á árinu voru Vestfirðir og Norðurland vestra, þar sem fólki fækkaði um eitt prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×