Innlent

Menn um borð í flutningaskipinu að kanna ástandið

Landhelgisgæslan hefur flutt fjóra starfsmenn Olíudreifingar í flutningaskipið Wilson Muuga, sem strandaði við Hvalsnes í vikunni, en þeir ætla að reyna að undirbúa skipið fyrir olíudælingu þegar hún verður möguleg.

Mennirnir ætla jafnframt að kanna ástand á olíutönkum og mæla hversu mikil olía er enn í þeim.

Vegna veðurs geta þeir stoppað stutt og verða fluttir aftur í land um tvöleytið. Útlit er fyrir slæmt veður næsta sólarhringinn og að sögn Hávars Sigurjónssonar, upplýsingafulltrúa Umhverfisstofnunar, eru litlar líkur á að hægt verði að dæla olíu úr skipinu næsta sólarhringinn.

Flogið verður yfir ströndina í hádeginu til að kanna hvort að eitthvað meira hafi lekið úr skipinu.

Wilson Muuga stóð af sér ágjafir næturinnar og er enn á réttum kili. Umhverfisstofnun sendir síðar í dag frá sér tilkynningu um hvert ástandið á skipinu er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×