Innlent

Mikil hætta á bráðri mengun úr flutningaskipinu

Flutningaskipið Wilson Muuga er nú flokkað sem umhverfisslys enda mikil hætta talin á bráðri mengun. Flogið var í skipið í dag til að kanna ástand skipsins og aðstæður til að dæla olíunni í land.

Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug með menn í skipið í dag til að skoða hvernig skipið væri leikið eftir strandið og barning á klöppunum. Göt eru komin á olíutanka og talsverð hætta talin á að olían geti lekið út í sjóinn. Þetta hefði alvarleg áhrif á fugla á svæðinu, sem leita sér næringar með ströndinni allan ársins hring. Sérstaklega yrði erfitt að hreinsa olíuna ef hún berst í sandstrandir.

Að sögn Davíðs Egilssonar, forstjóra Umhverfisstofnunar getur það hjálpað til ef vont er í veðri og öldugangur, þá á umhverfið auðveldara með að meðtaka olíuna án þess að hún valdi miklum skaða. Sama sagan er ef hún nær að leka út í smáum skömmtum. Hann efast um að hægt verði að byrja strax, þar sem erfitt verk verður að koma slöngu úr skipinu í land þar sem birtutími er stuttur þessa dagana og slæmt veður í aðsigi.

Nánast er búið að útiloka að skipið verði dregið út, þar sem það er komið inn fyrir skerjafláka og því þyrfti þriggja kílómetra langa taug til að draga það út. Skrokkurinn stendur hins vegar nokkuð stöðugur á klöppunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×