Innlent

Mesta vatnshæð síðan mælingar hófust

Vatnamælirinn þar sem Hvítá rennur um Fremstaver hefur aldrei sýnt meiri vatnshæð síðan hann var settur upp. Snorri Zóphóníasson, hjá Vatnamælingum Orkustofnunar, býst við að rennsli Ölfusár við Selfoss vaxi fram að miðnætti í kvöld og geti náð 2000 rúmmetrum á sekúndu, sem er fimmfalt meðalrennsli þessarar vatnsmestu ár landsins.

Vatnamælir við Ölfusá sýndi 1300 rúmmetra á sekúndu um hádegisbil og skarpt vaxandi rennsli. Það sama má segja um aðra vatnamæla í Árnessýslunni, þar fer rennsli enn vaxandi. Vatnshæðin í Ölfusá hefur hækkað um tvo metra nú á einum og hálfum sólarhring. Snorri segir hæstu skráðu vatnshæð hafa verið á Selfossi árið 1968. "Þá voru aðstæður samt allt aðrar þar sem ís og krapi stífluðu rennslið niðri við ósinn," segir Snorri og segir að svo sé ekki nú.

Á myndbandinu má sjá vatnselginn í Hvítá flengjast yfir brúna á Brúarhlöðum en þar var veginum lokað um miðmorgunsbil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×