Innlent

Hjálmar Árnason vill lögreglurannsókn í málefnum Byrgisins

Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, vill að lögreglurannsókn fari fram á málefnum meðferðarheimilisins Byrgsins í Grímsnesi og forstöðumanns þess Guðmundar Jónssonar í ljósi upplýsinga um kynferðislega misneytingu í sjónvarpsþættinum Kompási á sunnudaginn var. Hjálmar sagði í þættinum Ísland í bítið á Stöð2 í morgun, að hann væri ekki alveg sammála Ólafi Helga Kjatanssyni, sýslumanni á Selfossi, um að ekki væri ástæða til að láta fara fram rannsókn í málinu. Hann sagðist hafa ráðfært sig við lögfræðinga, sem segðu að þegar svona óyggjandi vísbendingar kæmu fram, þá hefði lögreglan ákveðna frumkvæðisskyldu. Hjálmar sagðist sammála þeirri túlkun þeirra, því það snéri að trú fólks á réttarkerfinu. "Vísbendingar eru komnar fram í Kompási, mjög sterkar, og þá í nafni sannleikans finnst mér að lögreglan eigi að koma inn, Guðmundar vegna, Byrgisins vegna, Jóhannesar í Kompás vegna og ekki síst vegna skjólstæðinga Byrgisins," sagði Hjálmar. Hann sagði líka að, þrátt fyrir að þá skelfilegu stöðu, sem komin væri upp í málefnum Byrgisins núna, þá mætti ekki gleyma því að þar hefði náðst feykilega góður árangur á þeim tíu árum sem það hefði starfað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×