Innlent

Aurskriða féll á bæ í Eyjafjarðarsveit

Mikill vatnselgur hefur verið í Eyjafirði í nótt.
Mikill vatnselgur hefur verið í Eyjafirði í nótt.
Aurskriða féll úr fjallinu ofan við bæinn Grænuhlíð í Eyjafjarðarsveit laust fyrir klukkan sjö í morgun og lenti á íbúðarhúsum og útihúsum. Engin meiðsl urðu fólki en skriðan fór yfir veginn við bæinn á allt að 100 metra kafla að sögn lögreglu á Akureyri.

Tókst ábúendum, hjónum og einu barni, að komast á dráttarvél yfir skriðuna og í öruggt skjól á bænum Hrísum. Íbúar á bæjum sunnan við Grænuhlíð hafa verið varaðir við en skriðusérfræðingur telur þó ekki miklar líkur á skriðuföllum þar.

Kort af svæðinu
Ekki er vitað um afdrip nautgripa og fjár í útihúsum í Grænuhlíð en rafmagn fór af fjósinu að sögn lögreglu. Önnur skriða féll úr fjallinu skömmu áður en hún náði ekki heim að húsum. Ekki er vitað hversu mikið tjón hefur orðið á mannvirkjum.

Þá féll aurskriða á veginn norðan við Kolgrímustaði í Eyjafjarðarsveit og lokar hún veginum. Hefur lögregla lokað þjóðveginum til suðurs við Saurbæ í Eyjafjarðarsveit. Lögregla segir í tilkynningu að í birtingu verði aðstæður kannaðar á vettvangi með skriðusérfræðingi og þá tekin ákvörðun um frekari aðgerðir og opnun vega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×