Innlent

Háskóli Íslands brýtur jafnréttislög í annað sinn á árinu

Kærunefnd jafnréttismála komst í gær að þeirri niðurstöðu að Háskóli Íslands hefði brotið gegn jafnréttislögum þegar hann réð karlmann í stöðu sérfræðings við stærðfræðistofu Raunvísindastofnunar HÍ. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögmanni konunnar.

Kona heitir Freyja Hreinsdóttir og hún er doktor í stærðfræði og hafði fjögurra ára starfsreynslu við stærðfræðistofu þegar henni var hafnað. Freyja er nú dósent í stærðfræði við Kennaraháskóla Íslands.

Í tilkynningunni segir einnig að niðurstaða kærunefndarinnar sé sú að Háskólinn hafi ekki getað rökstutt ráðningu karlmannsins út frá hæfni viðkomandi og ekki getað sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar þeirri ákvörðun að ráða karlmann í stöðuna.

 

Þetta er í annað sinn á árinu sem kærunefnd jafnréttismála úrskurðar að Háskóli Íslands hafi brotið jafnréttislög vegna ráðninga í raunvísindum. Í júni komst kærunefndin að því að gengið hefði verið fram hjá Önnu Ingólfsdóttur þegar ráðið var í stöðu dósents í tölvunarfræði við verkfræðideild Háskólans í fyrra. Anna starfar nú sem prófessor í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík

 

Í tilkynningu lögmanns Freyju segir að af niðurstöðunni í gær og fyrri niðurstöðu í máli Önnu Ingólfsdóttur verði að draga þá ályktun að Háskóli Íslands þurfi að bæta verulega ráðningaraðferðir svo þær standist stjórnsýslu- og jafnréttislög.

Þess má geta að félagsmálaráðuneytið veitti skólanum jafnréttisviðurkenningu fyrr á árinu fyrir að hafa kosið konu sem rektor og fyrir að hafa staðið vel að jafnréttismálum í gegnum árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×