Innlent

Ekkert lát á ofsaakstri ungra pilta

Ekkert lát virðist vera á ofsaakstri hjá ungum drengjum.
Ekkert lát virðist vera á ofsaakstri hjá ungum drengjum. MYND/Hörður

Sautján ára unglingur var sviptur ökuréttindum á staðnum eftir að lögreglan mældi hann á liðlega hundrað og fjörutíu kílómetra hraða á Gullinbrú í Grafarvogi í nótt. Fimm 17 ára piltar hafa verið stöðvaðir vegna ofsaaksturs á nokkrum dögum.

Þar er hámarkshraðinn sextíu, en pilturinn var með aðeins fimmtán daga gamalt ökuskírteini. Jafnaldri hans með aðeins fimm dögum eldra ökuskírteini var svo stöðvaður á Hringbraut á rúmlega níutíu kílómetra hraða eða fjörutíu kílómetrum yfir hámarkshraða. Þriðji jafnaldri þeirra var svo tekinn á hundrað kílómetra hraða á Reykjanesbraut, á móts við Bústaðaveg, þar sem hámarkshraði er sjötíu kílómetrar.

Þessu til viðbótar tók 16 ára piltur heimilisbílinn ófrjálsri hendi austur á Laugarvatni í gærkvöldi og ók á rafmagnskassa með þeim afleiðingum að hluti byggðarinnar myrkvaðist. Pilturinn slapp ómeiddur en bíllinn skemmdist. Ekki eru nema nokkrir dagar síðan að þrír aðrir 17 ára unglingar voru mældir á ofsahraða að kvöld- og næturlagi í borginni. Athygli vekur að engin 17 ára stúlka kemur við sögu lögreglunnar vegna ofsaaksturs en álíka margar stúlkur og piltar taka bílpróf á átjánda árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×