Innlent

Kópavogsbær kynnir skipulagshugmyndir á Kársnesi

Kópavogsbær kynnir fyrir íbúum í kvöld nýjar hugmyndir um skipulag vestast á Kársnesi á svokölluðu endurbótasvæði. Nokkur styr hefur staðið um breytingarnar en bæjaryfirvöld í Kópavogi segja að með hugmyndunum sé verið að byggja svæðið upp á nýtt eftir að það hafi verið í niðurníðslu.

Fram kemur í tilkynningu frá Kópavogsbæ að skipulagsnefnd bæjarins standi fyrir fundinum í kvöld og að þar verði meðal annars gerð grein fyrir úttektum sem farið hafa fram á umferðar- og skólamálum vegna fyrirhugaðar byggðar. Að lokinni kynningu er gert ráð fyrir umræðu um hugmyndirnar á einstaka reitum byggðarinnar og eru bæjarbúar hvattir til að láta sínar skoðanir í ljós.

Eins og greint var frá í fréttum Stöðvar 2 á dögunum stendur til að byggja hátt í 1000 íbúðir á svæðinu sem þýðir hátt í tvöföldun íbúafjölda í Vesturbæ Kópavogs. Fundur skipulagsnefndar verður í Salnum í Kópavogi í kvöld klukkan 20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×