Innlent

Vilja hækka verð á hreindýraveiðileyfum

MYND/GVA

Dreifbýlis- og hálendisnefnd Fljótsdalshéraðs hefur farið fram á það við Hreindýraráð, Umhverfisstofnun og umhverfisráðuneytið að verð á hreindýraveiðileyfum verði hækkað að minnsta kosti til samræmis við almennar verðhækkanir enda sé eftirspurn eftir leyfunum mikil.

Nefndin fundaði í gær og fram kemur í fundargerðinni að ekki geti talist eðlilegt að verðinu sé haldið niðri þar sem almennt sé talið að verðlagning fari eftir framboði og eftirspurn. Fjölgun veiðileyfa ein og sér séu ekki nægileg rök þar sem henni hljóti líka að fylgja aukinn árangur.

Þá átelur nefndin seinagang umhverfisráðuneytisins við að svara bréfum Fljótsdalshéraðs um þessi mál og ítrekar ósk um fund með starfsmönnum ráðuneytisins.

Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins fyrr á árinu að hreindýraveiðileyfi hefðu ekki hækkað í fjögur ár og að umhverfisráðherrra hefði synjað beiðni Umhverfisstofnunar og heimamanna á Austurlandi um hækkun í samræmi við vísitölu neysluverðs.

Þær upplýsingar fengust á veiðistjórnunarsviði Umhverfisstofnunar í dag að veiðileyfin í fyrra hefðu kostað á bilinu 35 til 110 þúsund krónur, allt eftir veiðisvæði og kyni hreindýrs. Þá hefur ekki verið tekið tillit til kostnaðar vegna leiðsögumanna á veiðisvæðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×