Innlent

Stórlega hefur dregið úr hraðaakstri á Suðurlandsvegi

Stórlega hefur dregið úr hraðakstri á Suðurlandsvegi undanfarna daga, svo tíðindum sætir, að sögn lögreglunnar á Selfossi.

Heyrir nú til algerra undantekninga að menn mælist á of miklum hraða, og þeir fáu, sem hafa mælst, eru aðeins lítillega yfir hámarkshraða. Lögregla hefur enga einfalda skýringu á þessu, en getur sér þess til að mikil umræða um ótryggt öryggi vegfarenda um veginn og hörmulegt banaslys, sem varð á veginum nýverið, kunni að skýra þetta að hluta.

Þessarar þróunar hefur hinsvegar ekki orðið vart á Vesturlandsvegi að sögn lögreglu. En það eru fleiri en ökufantar, sem ógna örygginu i umferðinni þessa dagana. Í átaki lögreglunnar í Reykjavík gegn ölvunarakstri, þar sem fjöldi ökumanna er stöðvaður á kvöldin og næturnar, koma í ljós ökumenn sem eru að aka undir áhrifum lyfja eða fíkniefna. Einnig hafa ökumenn verið teknir undir áhrifum áfengis og réttindalausir eftir að hafa verið sviptir réttindum vegna hraðaksturs eða ölvunaraksturs. Lögreglan hefur jafnvel stöðvað 15 og 16 ára unglinga sem aldrei hafa lært á bíl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×