Innlent

Ljósaþjófur stelur jólunum í Keflavík

Einhver kertasníkir er á ferð í Keflavík og stelur öllum ljósum steini léttari.
Einhver kertasníkir er á ferð í Keflavík og stelur öllum ljósum steini léttari. MYND/Haraldur Jónasson

Nokkrir íbúar í Keflavík hafa orðið fyrir því að undanförnu að perum er stolið úr ljósaseríum sem settar eru upp fyrir jólin, að því er fréttavefur Víkurfrétta greinir frá. Þar segir meðal annars frá fólki sem býr á jarðhæð í blokk og hefur gefist upp á að lýsa upp skammdegið eftir að perur hafa horfið úr seríunni í tvö ár í röð.

Annar segir frá því að 45 perur hafi horfið í nótt og að frá upphafi aðventu hafi yfir 100 ljósaperur horfið.

Erfitt er að sjá að nokkur steli þvílíku magni af ljósaperum af þörf og varla fæst hátt verð fyrir notaða ljósaperu á svarta markaðinum í Keflavík, því liggur beint við að ætla að um skemmdarverkastarfsemi sé að ræða.

Því er aðeins hægt að vona að jólaandinn steypist yfir perusníkinn og hann skili ljósunum og láti af ósiðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×