Innlent

Ríkið eignast Landsvirkjun að fullu

Landsvirkjun verður að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins frá næstu áramótum, samkvæmt samningi sem var undirritaður í dag. Ríkissjóður greiðir Reykjavíkurborg um 27 milljarða króna og Akureyrarbæ um þrjá komma þrjá milljarða króna fyrir eignarhlut þeirra í fyrirtækinu. Ráðherrar segja að ekkert liggi fyrir um einkavæðingu Landsvirkjunar.

Landsvirkjun er í þessum samningum metin á 60,5 milljarða króna en fyrirtækið er eigandi að öllum stærstu vatnsaflvirkjunum hérlendis og framleiðir yfir 80 prósent af allri raforku í landinu. Landsvirkjun var upphaflega stofnuð árið 1965 þegar ráðist var í gerð Búrfellsvirkjunar en Reykjavíkurborg lagði þá Sogsvirkjanir inn sem sitt stofnfé. Akureyrarbær kom inn sem eigandi árið 1983 og lagði þá Laxárvirkjun með sér. Undirritun samninganna í dag markar því þáttaskil en þeir eru gerðir með fyrirvara um samþykki Alþingis, borgarstjórnar Reykjavíkur og bæjarstjórnar Akureyrar. Aðeins um tíundi hluti kaupverðs verður greiddur þann 1. janúar næstkomandi. Eftirstöðvarnar verða greiddar með skuldabréfum til 28 ára og renna til að mæta lífeyrisskuldbindingum vegna starfsmanna sveitarfélaganna tveggja. Iðnaðarráðherra og borgarstjóri sögðu báðir að meginástæða sölunnar væri gjörbreytt umhverfi á raforkumarkaði. Það gengi ekki í samkeppnisumhverfi að Reykjavíkurborg sem aðaleigandi Orkuveitu Reykjavíkur væri jafnframt stór eignaraðili að Landsvirkjun. Margir munu álykta að hér sé verið að stíga fyrsta skrefið í átt að einkavæðingu Landsvirkjunar. Þeir Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra og Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins sögðu þó báðir í dag að ekki lægi annað fyrir en að Landsvirkjun yrði áfram sameignarfélag í eigu ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×