Innlent

Níu tennur fórnarkostnaður nauðgunar

Níu tennur voru brotnar í fyrrverandi lögreglumanni sem reyndi að bjarga eiginkonu sinni þegar hópur manna gerði tilraun til að nauðga henni inni á salerni skemmtistaðar í miðborginni aðfaranótt sunnudags. Mönnunum var sleppt eftir yfirheyrslur. Veitingastjóri staðarins segir að efla þurfi sýnilega löggæslu í miðbænum um helgar til að sporna gegn ofbeldi.

Maðurinn sagði fréttastofu Stöðvar tvö að hjónin hefðu borðað kvöldverð í miðbænum á laugardagskvöldið. Klukkan rúmlega eitt fóru þau á veitingastaðinn Café Victor og þurfti konan að fara á salerni fljótlega eftir það. Þegar manninn fór að lengja eftir henni gekk hann inn á salernið, en lásinn var brotinn þegar konan fór þar inn svo aðgengi var mjög auðvelt. Þar sá hann fjóra menn sem héldu eiginkonu hans nauðugri, en hún grét eftir hjálp. Maðurinn réðist inn í hópinn þar sem mennirnir fjórir létu ótal högg dynja á honum, bæði með hnefum og hnjám. Þeir fóru ekki fyrr en aðrir gestir komu inn á salernið. Maðurinn var meðvitundarlaus þegar sjúkraflutningamenn komu á staðinn en rankaði við sér þegar hann var borinn út.

Maðurinn er með töluverða áverka í andliti, átta spor í gegnum vörina og níu brotnar tennur. Þá er hann marinn víða um líkamann. Eiginkona mannsins er einnig marin víða á líkamanum, mest þó á handleggjum.

Baldur Guðmundsson veitingastjóri Café Victors segir að salernin séu ekki undir stöðugu eftirliti, en séu hluti af svokölluðum dyravarðarrúnti sem farinn er með stuttu millibili.

Hann segir að lásinn á salerninu hafi verið brotinn fyrr um kvöldið og ekki hafi skapast tækifæri til að gera við hann.

Lögreglan kom fljótt á vettvang og lokaði staðnum. Tíu manns voru handteknir og færðir til yfirheyrslu á lögreglustöð.

Baldur segir skemmtistaði í heild sinni þurfi að koma sér upp verklagsreglum til að auka eftirlit á salernum og til greina komi að ráða klósettverði.

Þá segir Baldur mikilvægt að löggæsla verði sýnilegri í miðbænum um helgar.

Hinir meintu árásarmenn voru fjórir talsins. Þeir eru frá Litháen og Póllandi en eru búsettir hér á landi. Mönnunum var sleppt eftir yfirheyrslur í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×