Innlent

Húsavíkursmyglið hugsanlega angi af stórum smyglhring

Höfnin á Húsavík, þar sem lögregla sat fyrir smyglurum.
Höfnin á Húsavík, þar sem lögregla sat fyrir smyglurum. MYND/kk

Grunur leikur á að smyglmál, sem uppvíst varð um í rússnesku frystiskipi á Húsavík, sé aðeins angi af víðtæku smyglkerfi, sem tengist innflytjendum hér á landi. Liðsauki frá Ríkislögreglustjóra og fíkniefnadeild Reykjavíkurlögreglunnar verður væntanlega sendur norður í dag til að gera allsherjarleit í skipinu.

Lögreglan á Húsavík mun að öllum líkindum krefjast kyrrsetningar á skipinu, sem nú er að losa heilfrystan rússafisk á Raufarhöfn til endurvinnslu hér á landi. Þegar hefur verið lagt hald á 14 hundruð karton af sígarettum , að söluverðmæti hátt í átta milljónir króna, og tugi lítra af Vodka. Sex menn voru handteknir í fyrrakvöld, tveir rússneskir skipverjar, Íslendingur og fjórir menn frá Rússlandi og Lettlandi.

Rússarnir og Lettarnir höfðu komið frá Reykjavík vegna skipakomunnar til Húsvíkur og áttu að flytja varninginn til Reykjavíkur. Þeim var öllum sleppt í nótt en tveir Rússar til viðbótar voru handteknir í morgun vegna rannsóknarinnar og þrátt fyrir að skipið sé að verða búið að landa á Raufarhöfn, er það hvergi nærri á förum, eins og lögreglan á Húsavík orðar það. Þar liggur fyrir staðfest vitneskja um smygl með ámóta hætti þar sem varningnum var dreift á skipulegan hátt á neðanjarðarmarkaði meðal innflytjenda.

Ekki liggur fyrir hvort fíkniefnum eða hráefnum til fíkniefnagerðar hefur verið smyglað með þessum hætti, en að óbreyttu stefnir í víðtæka leit í skipinu, meðal annars til að ganga úr skugga um slíkt. Samkvæmt heimildum Fréttastofunnar tengjast nokkrir Íslendingar málinu, auk þess sem var handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×