Innlent

Mun langdrægari metanbílar

Sex nýir metanbílar verða afhentir Sorpu við hátíðlega athöfn í dag. Þessir bílar eru af nýrri kynslóð metanbíla sem eru mun langdrægari en fyrri metanbílar. Árni Þórður Jónsson, kynningarfulltrúi, segir bílana draga allt að 430 kílómetra á einum tanki, sem auki möguleikana á almennri notkun til muna. 60 metanbílar eru í notkun í Reykjavík í dag, flest fyrirtækjabílar.

Metanstöðin á Ártúnshöfða er þó opin almenningi og ekkert því til fyrirstöðu að almenningur fjárfesti í metanbíl. Þeir eru á svipuðu verði og bílar með bensínvélar, eftir að ríkið er búið að fella niður hluta af vörugjöldunum. Þar ofan á bætist að metanið er mun ódýrara en bensínið. Rúmmetrinn af metani kostar 88 krónur, sem jafnast á við að bensínlítrinn kosti 73,57 krónur.

Ókosturinn er að hingað til hefur aðeins verið hægt að fá metan á einum stað, á Ártúnshöfðanum í Reykjavík. Það er því ekki hægt að fara langt út fyrir borgina. Með aukinni langdrægni eru möguleikarnir þó að aukast. Metangasið er framleitt hér á Íslandi, af fyrirtæki sem heitir Metan. Því er safnað á sorpbrennslustöð Sorpu í Álfsnesi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×