Innlent

Aukin framlög Íslendinga til þróunarsamvinnu

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, flytur ræðu sína á 61. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag.
Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, flytur ræðu sína á 61. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag. MYND/Utanríkisráðuneytið

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, sagði í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag að Íslendingar öxluðu ábyrgð með auknum framlögum til þróunarsamvinnu. Hún lagði einnig áherslu á stöðu kvenna og barna. Á þessu 61. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna er lögð sérstök áhersla á alþjóðlegt samstarf í þróunarmálum.

Valgerður talaði í ræðu sinni um umhverfismál og endurnýtanlega orku. Hún sagði Ísland hafa sérstöðu hvað varðar jarðhita og að Íslendingar hefðu þekkingu að miðla á því sviði. Valgerður sagði málefni hafsins einnig hafa áhrif á afkomu þróunarríkja þar sem 95% þeirra sem byggðu afkomu sína á sjávarútvegi væru þróunarríki. Óábyrgar fiskveiðar og mengun hafsins væru því áhyggjuefni. Valgerður sagði fundargestum frá framlagi Íslendinga til aukinnar framþróunar og ábyrgðar á þessum sviðum. Hún sagði framlagið meðal annars felast í þjálfun sérfræðinga frá þróunarríkjunum.

Utanríkisráðherra notaði einnig tækifærið til að opna nýja heimasíðu þar sem framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna er kynnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×