Innlent

Forsætisráðherra kynnir varnarsamkomulag

MYND/Heiða Helgadóttir
Geir H. Haarde forsætisráðherra er þessa stundina að gera fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna grein fyrir niðurstöðum samningaviðræðna Íslendinga og Bandaríkjamanna um brottflutning Varnarliðsins. Greint er frá þeim opinberlega síðar í dag. Að loknum þessum fundi verður utanríkismálanefnd Alþingis kynnt málið.

Íslendingar taka yfir eignir Varnarliðsins sem greiðslu fyrir hreinsun og annan kostnað, sem til fellur vegna brottfarar hersins, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Þá verður stofnað hlutafélag um ráðstöfun eignanna, samkvæmt ákvörðun pólitískrar nefndar. Löndin munu áfram hafa með sér varnarsamstarf, sem er almennt orðað að sögn Fréttablaðsins og sumt er sagt hernaðarleyndarmál. Þá munu Bandaríkjamenn aðstoða Íslendinga við að endurskipuleggja stjórnkerfi öryggismála og jafnvel þjálfa viðkomandi í Bandaríkjunum. Þeir ætla líka að reka ratsjárstöðvarnar í eitt ár, en þá taka Íslendingar við rekstrinum. Samningurinn tekur ekki til ráðstöfunar eigna NATÓ hér á landi eins og olíubirgðastöðva í Hvalfilrði og í Helguvík, ratsjárstöðvanna og ýmissa hernaðarmannvirkja á Keflavíkruflugvelli, eins og til dæmis flugskýla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×