Innlent

Aukin hætta á skriðu

Sprunga er í Óshyrnunni, fyrir ofan Óshlíðarveg milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar.  Hún gliðnaði miklu meira síðasta vetur en árin þar á undan og segir bæjarstjórinn í Bolungarvík þetta enn ein rökin fyrir því að hefja jarðgangagerð strax. Ef hluti Óshyrnu hleypur í sjó fram, myndast áreiðanlega flóðbylgja, en erfitt er að meta hversu stór hún yrði, segir jarðfræðingur sem mældi gliðnunina í gær.

Lengi hefur verið vitað um sprunguna. Vegagerðin hefur látið mæla gliðnun hennar síðan árið 1982, en síðasta vetur var hún fimm millimetrar, mun meiri en nokkru sinni áður. Því var ráðist í að mæla hana aftur í gær, til að ganga úr skugga um að ekki hefði orðið frekari gliðnun í sumar. Svo reyndist ekki vera. Afar erfitt er að meta hvað muni gerast, rifni sprungan og stykki úr fjallinu hleypur í sjó fram. Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur, einn mælingamanna fyrir Vegagerðina, segir efnismassann það mikinn að augljóst sé að flóðbylgja myndist, en mjög erfitt sé að meta hversu stór hún yrði.

Bæjarstjórinn í Bolungarvík var í för með mælingamönnum. Hann segist ekki óttast að keyra um Óshlíðarveg eftir að hafa séð sprunguna, en hins vegar fari ekki milli mála að bregðast þurfi við og það skjótt. Hefjast þurfi handa við jarðgangagerð sem allra fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×