Innlent

Mikil sprengjuhreinsun á varnarliðssvæðinu

Sprengjuhreinsa þarf stórt landsvæði eftir að varnarliðið hverfur endanlega úr landi. Sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar hefur yfir búnaði og þekkingu að ráða til verksins, en kostnaðurinn yrði mikill.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er búið að leggja mikla vinnu í að kortleggja svæðið með tilliti til þess hvar sprengjur og sprengjuleifar sé að finna í jörðu. Herinn fékk einnig óháða bandaríska sendinefnd til að fara um svæðið og reyna að meta umfangið.

Sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar fékk tíu milljónir króna frá utanríkisráðuneytinu í fyrra til að hefja hreinsun, en mun meira fé þarf til að vinna allt verkið. Enn er ekki ljóst hvernig samið hefur verið við Bandaríkjamenn um hreinsun varnarliðssvæðisins, en enginn fulltrúi frá Landhelgisgæslunni tók þátt í samningaviðræðunum.

Forsætisráðherra hefur sagt að ríkisstjórninni verði kynnt samkomulagið eftir helgina og stjórnarandstöðu og utanríkisnefnd í kjölfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×