Innlent

Ríkið æsir til einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu

Bæklunarlæknar eru ekki bjartsýnir á að fundir með samninganefnd heilbrigðisráðuneytisins skili ásættanlegum árangri og fleiri sérgreinalæknar líta einnig til fordæmis hjartalækna sem sögðu sig af samningi við Tryggingastofnun í vor. Formaður Læknafélags Íslands segir að með því að takmarka þjónustuna sé ríkið að æsa til einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu.

Fulltrúar bæklunarlækna funduðu með Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra, á föstudaginn og hitta fyrir samninganefnd heilbrigðisráðuneytisins á fimmtudaginn kemur. Sveinbjörn Brandsson, formaður samninganefndar bæklunarlækna er ekki bjartsýnn á árangur af komandi fundum. Þetta kemur ekki á óvart þar sem í heilbrigðisráðuneytinu heyrast þau svör að ekkert sé að semja um, samningurinn við Tryggingastofnun sé enn í fullu gildi og verði svo út mars 2008. Sveinbjörn er hins vegar ekki sammála því að ekkert sé að semja um. Bæklunarlæknar segi biðtíma sjúklinga óásættanlega langan og jafnvel þó að læknar standi á bremsunni og takmarki mjög heimsóknir sjúklinga þá klárist kvótinn og margir læknar þurfi nánast að loka stofum sínum í nóvember og desember vegna þess að þá sé kvóti Tryggingastofnunar búinn. Sveinbjörn segir það verða þrautalendingu ef ekki finnst önnur lausn að bæklunarlæknar líti til fordæmis hjartalækna sem sögðu sig af samningnum við Tryggingastofnun í vor.

Fleiri sérgreinalæknar eru langþreyttir á samningum Tryggingastofnunar um kvóta sem klárast oft áður en árið er á enda. Mikið kurr var til dæmis meðal augnlækna í vor þar sem hratt gekk á þær fjárheimildir sem læknunum eru úthlutaðar hjá Tryggingastofnun. Vildu margir segja sig af samningi við Tryggingastofnun líkt og hjartalæknar gerðu í vor en forysta félags augnlækna hvatti til þolinmæði og aukins aðhalds, sem í hugum margra lækna kristallast í lengri biðtímum og lélegri þjónustu við sjúklinga. Einnig hafa barnageðlæknar átt í bréfaskiptum við Tryggingastofnun vegna takmarkaðra fjárheimilda.

Sigurbjörn Sveinsson, formaður Læknafélags Íslands, segir takmarkandi kvóta Tryggingastofnunar vera letjandi fyrir lækna að vera á samningi hjá Tryggingastofnun. Með þröngum fjárheimildum sé því verið að æsa til einkavæðingar með því að langþreyttir læknar gefist upp á samstarfi við ríkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×